Það er okkur ánægja að tilkynna að miðvikudaginn 3. mars sl. fékk Sundfélagið Óðinn viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Það var vel við hæfi að afhenda viðurkenninguna á sundlaugarbakka Sundlaugar Akureyrar í fallegu norðlensku veðri. Það voru þeir Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri sem afhentu formanni félagsins Guðrúnu Rósu Þórsteinsdóttur viðurkenninguna. Helgi Rúnar framkvæmdarstjóri ÍBA var einnig viðstaddur og Magni Rafn Ragnarsson og Ísabella Jóhannsdóttir ungir iðkendur úr Óðni halda á fána Fyrirmyndarfélagsins.
Þetta er virkilega flott skref og sundfélagið er afar stolt af þessari viðurkennginu og geta kallað sig Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Sundfélagið fékk fyrst viðurkenningu árið 2006 og aftur árið 2013 sem Fyrirmyndarfélag en endurnýja þarf viðurkenninguna með reglulegur millibili.
Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og Fyrirmyndarhérað ÍSÍ eru gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snúa að íþróttastarfi. Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög, -deildir eða -héruð sótt um viðurkenningu til ÍSÍ miðað við þær gæðakröfur sem ÍSÍ gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ og geta kallað sig Fyrirmyndarfélag ÍSÍ, Fyrirmyndardeild ÍSÍ eða Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.
Lesa má meira um Fyrirmyndarfélag ÍSÍ hér:
https://www.isi.is/fraedsla/fyrirmyndarfelag-isi/
Lesa má meira um Fyrirmyndarhérað ÍSÍ hér:
https://www.isi.is/fraedsla/fyrirmyndarherad-isi/