Uppgjör fyrir bikarkeppni SSÍ

Þá er bikarkeppni SSÍ lokið að þessu sinni. Strákarnir komu heim með laglegan bikar fyrir sigur í 2. deild og vantaði bara herslumuninn  til að vinna sér á ný sæti í 1. deild. Stelpurnar sigldu nokkuð lygnan sjó í 1. deildinni og enduðu í 5. sæti.

Bikarkeppnin er talsvert frábrugðin hefðbundum sundmótum. Um er að ræða liðakeppni þar sem keppt er í 12 sundgreinum, auk tveggja boðsunda. Ekki eru veitt verðlaun fyrir einstakar greinar heldur safna sundmenn stigum sem reiknuð eru út sem hlutfall af besta heimsárangri.  Þ.e.  því nær sem sundmenn eru besta tíma í greininni, þeim mun fleiri stig fá þeir. Hvert lið sendir tvo keppendur í hverja grein en hver sundmaður má aðeins  keppa í þremur einstaklingsgreinum samtals. Því skiptir ekki bara máli að sundmenn standi sig sem best heldur reynir hér verulega á þjálfarann að stilla liðinu upp þannig að stigin nýstist sem best. Af þessum sökum eru sundmenn í birkarkeppninni ekki endilega að keppa í sínum sterkustu greinum, a.m.k. ekki eingöngu.

Hörð og spennandi keppni
Keppt er í tveimur deildum karla og kvenna. Í 1. deild keppa 6 sterkustu liðin frá árinu áður. Lið í 2. deild getur svo unnið sig upp um deild að því tilskyldu að það nái að safna fleiri stigum en neðsta lið 1. deildar. Það var einmitt markmið Óðins-strákanna, sem kepptu í 2. deild að þessu sinni. Mótið skiptist í þrjá  hluta og að loknum 2. hluta var útlitið nokkuð bjart. Bæði var liðið efst í deildinni og með fleiri stig en KR, sem var neðst í 1. deildinni. Í 3. og síðasta hlutanum náðu strákanir að verja toppsætið, þótt tæpt væri það. Þeir fengu samtals 9.849 stig en SHb 9.730.  Þá tók við spennandi bið eftir að keppni í 1. deild myndi klárast en á lokasprettinum náðu KR-ingar að síga upp fyrir okkur með 9.994 stig. Því verður 2 deildin hlutskipti strákanna okkar aftur næst. Í fyrra fékk karlalið Óðins 9.754 sig þannig að árangurinn var betri nú. Heildarúrslit 2. deild

Stelpurnar öruggar
Óðinsstelpurnar kepptu í 1. deild og sigldu sem fyrr segir nokkuð lygnan sjó um miðja deild allan tímann.  Keppnin var frekar jöfn framan af en leiðir skildu nokkuð er á leið.  Fyrir lokahlutann var Óðinn í 4. sæti, rétt á undan ÍA-stelpum, en endaði í 5. sæti með 11.518 stig. Heildarúrslit 1. deild

Jóla-bikar?
Þess má að lokum geta gerð hefur verið tillaga um að bikarkeppni næsta sundtímabils verði fyrir áramót  og í drögum að keppnisdagatali hefur hún verið sett á síðustu helgi fyrir jól. Þá yrði jafnframt keppt í 25 m laug.

Óðinn vann bikarkepppni 2 deild