Þá er 2. degi á ÍM25 lokið á krakkarnir halda áfram að gera góða hluti. Akureyrarmet féllu og margir voru að komast í úrslit. „Ég er rosalega ánægð með krakkana. Þau eru nær öll að bæta persónulegan árangur sinn og sýna miklar framfarir,“ segir Ragnheiður Runólfsdóttir yfirþjálfari.
Nanna Björk Barkardóttir bætti Akureyrarmet 13-14 ára í 200 m bringusundi er hún synti á 2:44,14. Þá bætti Bryndís Bolladóttir Akureyrarmet meyja í 50 m skriðsundi er hún synti fyrsta sprett í boðsundi á 29,24. Fleira Óðinsfólk var að gera flotta hluti. Bryndís Rún Hansen, sem keppir undir merkjum Bergensvömmerna á mótinu, var hársbreidd frá sigri í 100 m skriðsundi á tímanum 56,82 en Akureyrarmet hennar er 56,08. Þá varð Bryndís 3. í 50 m baksundi á 29,31. Birgir Viktor Hannesson, sem æfir með Óðni en keppir undir merkjum ÍA, varð 3. Í 100 m fjórsundi.
Óðinn á fleira fólk í úrslitum en það eitt og sér að komast í úrslit á Íslandsmóti er mikið afrek. Nanna Björk synti til úrslita í 100 m fjórsundi og 200 m bringusundi, Oddur Viðar Malmquist 200 m flugsundi, Júlía Ýr Þorvaldsdóttir í 200 bringausundi og Hildur Þórbjörg Ármannsdóttir í 50 baksundi.
Þá syntu bæði karla og kvennasveitir Óðins til úrslita í 4x50 m skriðsundi. Kvennasveitina skipuðu þær Bryndís Bolladóttir, Karen Konráðsdóttir, Halldóra Sigríður Halldórsdóttir og Hildur Þórbjörg Ármannsdóttir. Karlasveitina skipuðu Birkir Leó Brynjarsson, Oddur Viðar Malmquist, Freysteinn Viðar Viðarsson og Einar Helgi Guðlaugsson.