Það verður að segjast eins og er að þegar við Pétur tókum við starfi yfirþjálfara sundfélagsins Óðins þá óraði okkur alls ekki fyrir þeim svakalegu áskorunum sem við höfum þurft að takast á við í tengslum við kófið. Það tímabil sem nú er nýafstaðið er bara annað tímabilið á okkar þriðja ári í starfi sem við náum að halda úti nánast óskertum æfingum.
Í byrjun tímabils náðum við samningum við Margréti Kristínu, einkaþjálfara, um að taka að sér þrekæfingar fyrir úrvals – og afrekshóp félagsins. Við erum að reyna að koma þrekæfingum inn í stundatöflu félagsins og hafa þær þannig að þær séu í framhaldi af sundæfingu. Aðstöðuleysi félagsins verður alltaf meira og meira sýnilegt en félaginu vantar sárlega aðstöðu til lyftinga, teygju og upphitunar fyrir og eftir sundæfingar. Félaginu vantar einnig sárlega 50m sundlaug til að vera samkeppnishæft við önnur sambærileg félög. Sorglegt að „íþróttabærinn“ Akureyri fái nú á sig holskeflu greina og ábendinga um hve aðstaða félagsins sé bágborinn í samanburði við önnur sveitarfélög. Eitthvað er ekki að ganga upp og forgangsröðun og uppbyggingarstefna bæjarfélagsins er sorglega fábrotin og byggir ekki á neinni framtíðarsýn.
Tímabilið hófst um miðjan ágúst 2021 á því að æfingar miðast mjög mikið við tækni, tækni og aftur tækni. Grunnforsenda þess að ná að synda einhvern tíma hratt er að hafa góða tækni til þess. Þess vegna höfum við Pétur lagt mikla áherslu á tækniæfingar nánast allan okkar þjálfaraferil.
Fyrsta mót sundtímabilsins var okkar eigið Sprengimót er fór fram helgina 18. – 19. september. Þar vorum við með 46 keppendur sem kepptu í samtals 389 greinum á mótinu. Af þessum 389 sundum voru bætingar í 186 sundum hjá okkar fólki. Mestu bætinguna á mótinu af okkar sundfólki átti Rakel Eva Valdimarsdóttir sem bætti sig um 105% í 50m baksundi. Unnu sundmenn Óðins til 10 bronsverðlauna, 19 silfurverðlauna og 16 gullverðlauna. Magni Rafn Ragnarsson vann allar sínar greinar og til sex gullverðlauna á þessu móti sem var besti árangur mótsins hjá sundfólki Óðins.
Annað mót tímabilsins var Extramót SH er fór fram 16. – 17. Október. Þetta mót er það mót sem við horfum til að ná inn sem flestum sundmönnum inn á Íslandsmeistaramótið í 25m laug. Þetta var síðasta mótið sem hægt var að ná lágmörkum inn á það mót. Óðinn sendi 27 keppendur á mótið sem kepptu í 302 greinum samtals. Bætingar urðu mjög margar eða í 134 greinum af þessum 302. Á þessu móti náðu Katrín Lóa Ingadóttir, Naomi Arnarsdóttir og Eydís Arna Isaksen lágmarki inn á Íslandsmeistaramótið auk þeirra sem fyrir áttu lágmark inn á mótið. Örn Kató Arnarsson varð í þriðja sæti í 200 bringusundi á nýju persónulegu meti (PB) 2:38.28. Kristófer Óli varð í þriðja sæti í 200m fjórsundi einnig á nýju PB 2:28.49. Eydís Arna varð svo í öðru sæti í sínum aldursflokki í 100m bringusundi er hún einnig kom í mark á nýju PB 1:24.31. Stefán Gretar Katrínarson varð þriðji í 100m skriðsundi í sínum aldursflokki er hann snerti bakkann á tímanum 1:04.48. Kristinn Viðar Tómasson varð í öðru sæti í 200m baksundi og bætti sinn besta tíma þar um 19 sekúndur er hann kom í bakkann á tímanum 2:26.46. Matthildur Eir Valdimarsdóttir kom líka á sínum besta tíma í þriðja sætið í 100m bringusundinu á tímanum 1:27.10.
Heilt yfir alveg ágætt mót með miklum bætingum en yfirþjálfarar vildu samt fá fleiri keppendur inn á ÍM að afloknu mótinu en við verðum bara að gera betur næst.
Stærsta mót hvers keppnistímabils er Íslandsmeistaramótið (ÍM). Fyrir áramótin er keppt í 25m laug en eftir áramótin er keppt í 50m laug. ÍM í 25m laug fór fram helgina 12.-14. nóvember í Ásvallarlaug í Hafnarfirði. Að þessu sinni átti Óðinn 12 keppendur er stungu sér til keppni í 106 greinum samtals. Að loknu móti urðu bætingar í 40 af þessum 106 greinum sem verður að teljast góður árangur heilt yfir. Mestu bætinguna á mótinu af sundfólki Óðins náði Naomi Arnarsdóttir í 400m skriðsundi er hún bætti sig um 18 sekúndur og kom í bakkanna á nýju PB 4:57.60. Markmið yfirþjálfara fyrir þetta mót var að fá amk 20 keppendur inn með lágmörk. Annað lágmark var að eiga fleiri keppendur í úrslitum en á síðasta ÍM í 25m laug. Seinna markmiðið náðist en við áttum keppendur í úrslitum í 8 greinum en á síðasta ÍM 25 áttum við keppendur í úrslitum í 3 greinum. Fyrra markmiðið náðist ekki en þar er tækifæri til bætinga og að því verður stefnt í keppni á 50m tímabilinu. Örn Kato Arnarsson var sá sundmaður Óðins er oftast var í úrslitum á mótinu eða alls 3 sinnum og besti árangur hans varð fimmta sætið í 200m bringusundinu er hann bætti sinn besta tíma um 4 sekúndur er hann kom inn á tímanum 2:34.45.
Þegar ÍM er lokið þá hefst ávallt yfirferð á áætlunum og hversu vel gekk til að ná þeim markmiðum sem sett voru í upphafi tímabilsins. Eftir yfirferðina þá gera yfirþjálfarar breytingar, setja nýjar áherslur og ný markmið. Alltaf sést eitthvað sem hægt er að gera betur, sumt gekk vel og annað ekki og þannig er það alltaf. Sundfólkið okkar er að æfa vel, heilt yfir. Við þurfum að bæta snúninga, takið sjálft, liðleika, styrk, mataræðið, fótavinnu og þá sérstaklega í kafi og alls ekki má gleyma því að við þurfum að setja gleði efst á listann.
Síðasta mót tímabilsins var Aðventumót Fjölnis er fram fór í Laugardalslauginni 4.-5. desember. Óðinn fór með 27 keppendur á mótið og kepptu þau í samtals 241 greinum og náðu bætingum í 150 af þeim greinum. Frábær árangur hjá yngri hóp okkar sundkrakka sem eru í raun að stíga sín fyrstu skref í átt að keppnisferli í sundíþróttinni. Mestu bætingu Óðins sundkrakka á þessu móti átti Bríet Laufey Ingimarsdóttir er hún bætti sig um 49 sekúndur í 100m baksundi. Sundfólk okkar náði í 12 bronsverðlaun, 3 silfurverðlaun og 2 gullverðlaun á þessu móti.
Yfirþjálfarar hafa einnig sett sér markmið til fimm ára um að ná inn sundfólki í alla landsliðshópa SSÍ. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er að eignast iðkendur sem ná inn í Framtíðarhóp SSÍ sem er fyrsta skrefið inn í landsliðströppugang SSÍ. Fyrir áramótin var það tilkynnt að þrír sundmenn Óðins voru valdir inn í þennan hóp. Það eru þær Eydís Arna Isaksen, Katrín Lóa Ingadóttir og Ísabella Jóhannsdóttir. Virkilega vel gert hjá þessum frábæru sundkonum.
Næsta tímabil verður stórkostlegt. Það hefst með keppni á RIG (Reykjavíkurleikunum) og þá verður afar fróðlegt að sjá árangur liðsins í 50m sundlaug. Við gerum okkar besta til að standa í iðkendum annarra félaga er æfa í 50m sundlaug sem hefur þak yfir sig. Þrotlausar æfingar og þrek okkar iðkenda er með ólíkindum og verður að hrósa öllum þeim sem að félaginu standa. Óðinn er þriðja stærsta sundlið landsins en með verstu aðstöðuna af fimm fjölmennustu liðum landsins.
Góðar stundir
Ingi Þór Ágústsson
Pétur Örn Birgisson