Árangur Óðins á AMÍ 2021

AMÍ árið 2021 var haldið í heimalaug Óðins á Akureyri. Að þessu sinni voru 29 keppendur skráðir til keppni frá félaginu á aldrinum 10 til 17 ára, 9 strákar og 20 stelpur kepptu samtals í 138 greinum.
Hjá strákunum var bæting í 25 sundum af 40 og hjá stelpunum var bæting í 55 sundum af 98. Óðinn varð í 5. sæti í stigakeppni félagana og hækkaði sig þar með upp um eitt sæti frá því á AMÍ fyrir ári síðan.
Sundmenn á vegum félagsins unnu til 13 verðlauna ef horft er til fyrstu sex sæta í grein í aldursflokkum. Magni Rafn Ragnarsson hinn ungi og knái sundmaður náði besta árangri sundmanna félagsins á mótinu en uppskera hans voru 3 silfurpeningar fyrir einstaklingssund og 2 brons fyrir boðsundin.
Mestu bætingar hjá einstaka sundmönnum, að öðrum iðkendum félagsins ólöstuðum, átti Juliane Liv Sörenssen hjá stúlkunum og svo Örn Kató Arnarsson hjá strákunum. Þau bættu sig í öllum þeim greinum sem þau kepptu í en Juliane bætti sig um 43 sekúndur samtals í sínum fimm greinum og Örn Kató bætti sig samtals 57 sekúndur í sínum sex greinum.
Boðsundssveitir Sveina urðu í þriðja sæti í bæði 4x50m fjórsundi sem og 4x50m skriðsundi. Fjórsundssveitina skipuðu þeir Björn Elvar Austfjörð, Ívan Elí Ólafsson, Magni Rafn Ragnarsson og Elvar Þór Guðbjarnason. Skriðsundsveitina skipuðu þeir Benedikt Már Þorvaldsson, Ívan Elí Ólason, Magni Rafn Ragnarsson og Elvar Þór Guðbjarnason.
 
Mótið var einstaklega vel heppnað af hendi allra þeirra sem að mótinu stóðu og til mikillar fyrirmyndar fyrir félagið. Árangur iðkenda sundfélagsins Óðins á mótinu gefur góð fyrirheit inn í næsta sundár.
 
Ingi Þór Ágústsson yfirþjálfari