Bryndís Rún Hansen er íþróttamaður Akureyrar fyrir árið 2010, annað árið í röð, en kjörinu var lýst í Ketilhúsinu í kvöld. Þetta er glæsilegur árangur og verðskuldaður. Þá fékk yfirdómari Óðins, Gunnar Viðar Eiríksson, sérstaka heiðursviðurkenningu fyrir áralangt, óeigingjarnt starf í þágu íþróttamála á Akureyri.
Að kjöri íþróttamanns Akureyrar sendur stjórn ÍBA og fulltrúar fjölmiðla á Akureyri. Í öðru sæti varð handknattleiksmaðurinn Oddur Gretarsson og íshokkímaðurinn Jón Benedikt Gíslason þriðji.
Nafnbótinni íþróttamaður Akureyrar fylgir glæsilegur farandbikar sem varðveittur hefur verið í Sundlaug Akureyrar undanfarin ár, þar sem gestir og gangandi geta virt hann fyrir sér.
Heiðursviðurkenning til Gunna!
Gunnar Viðar Eiríksson hefur um árabil unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu sundsins, bæði á Akureyri og landsvísu. Hann var sjálfur sundmaður á sínum yngri árum og 16 ára gamall var hann orðinn formaður Sundfélagsins Óðins. Hann tók aftur að sér fomennsku árabilinu 1987-1990 og hefur samstals verið formaður í um 10 ár. Árið 2002 var hann gerður að heiðursfélaga Sudfélagsins Óðins.
Hann tók þátt í að koma á fór garpasundi á Akureyri árið 1992, synti sjálfur til að byrja með en síðustu 10 árin hefur hann séð um æfingar garpahópsins.
Hin síðari ár hefur þó framlag hans sem sunddómari verið mest áberandi. Hann fékk dómararéttindi í sundi árið 1986 og yfirdómari hefur hann verið í um 10 ár. Hann varð alþjóðadómari í garpasundi árið 2005 og hefur þrívegis farið utan til að dæma á Evrópumeistaramótum garpa: Í Svíþjóð 2005, í Slóveníu 2007 og á Spáni 2009. Hann er á alþjóðalista yfirdómara og má því dæma á öllum alþjóðlegum mótum hér á landi. Þar sem hann er eini yfirdómari með réttindi á Norðurlandi hefur hann dæmt á mjög mörgum mótum hér í héraði og á öllum Óðinsmótum síðan 1986. Árið 2009 dæmdi hann á öllum mótum Sundsambands Íslands hefur og verið kosinn dómari ársins tvö ár í röð af félögum sínum í dómastétt, fyrir árin 2009 og 2010.
Loks má geta að hann hefur einnig nokkuð komið að starfi Siglingafélagsins Nökkva á Akureyri.