Dilla heiðruð

Dilla fékk í dag samfélagsverðlaunin Frá kynslóð til kynslóðar sem veitt eru af Fréttablaðinu. Til hamingju, Dilla, fyrir þessa verðskulduðu viðurkenningu á þínu starfi. Takk fyrir okkur!

Úr frétt á visir.is:

Í flokknum Frá kynslóði til kynslóðar hlaut Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttir verðlaun fyrir óeigingjarnt og fórnfúst starf við sundþjálfun barna um nær tveggja áratuga skeið. Dýrleif hefur þjálfað sund hjá sundfélaginu Óðni í hartnær tuttugu ár. Það segir meira en mörg ár að sundæfingar í Glerárlaug á Akureyri ganga undir nafninu Dillusund. Fyrstu árin sinnti hún sundþjálfuninni í sjálfboðavinnu enda hefur sundiðkun barna verið henni hjartans mál um áratuga skeið. Hún lætur ekki nægja sér að kenna börnum sundtök heldur vinnur að því að efla sjálfstraust þeirra og sýna þeim að þau geta mun meira en þau halda sjálf. Hún heldur mót þar sem allir sigra og fá að kynnast því hvernig er að keppa.


Sonur Dýrleifar, Steinar, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hennar hönd en hún var að sjálfsögðu stödd fyrir norðan að halda utan um sundmót. Einnig hlutu tilnefningu Ólöf Kristín Sívertsen og Marita fræðslan.