Hvað er sólarhringssund?
Sólarhringssund er aðal fjáröflun félagsins ár hvert þar sem sundfólk í eldri hópum félagsins skiptist á um að synda boðsund í heilan sólarhring. Áður en að því kemur hafa krakkarnir safnað áheitum, bæði með því að ganga í hús og hjá fyrirtækjum. Allur ágóði rennur í ferðasjóð félagsins.
Hverjir synda?
Eftirtaldir hópar taka þátt: Höfrungar, Krókódílar, Krossfiskar, Framtíðarhópur, Úrvalshópur og Afrekshópur. Líkt og með aðrar fjáraflanir lítum við á sólarhringssund sem hluta af félagsstarfi Óðins þar sem allir taka þátt og leggja sitt af mörkum.
Undirbúningur
Áheitum er safnað dagana áður en sundið fer fram og er það hin eiginlega fjáröflun. Annars vegar er safnað hjá fyrirtækjum, oftast með aðstoð foreldra, en hins vegar er gengið í hús, oft tveir eða fleiri krakkar saman. Til að ekki fari fleiri en einn í sama fyrirtæki eða götu þarf að skipuleggja fyrirfram hver fer hvert. Hver sundmaður velur sér fyrirtæki og götur til að fara í og er það skráð niður. Hversu margar götur hver og einn tekur veltur auðvitað á stærð þeirra en æskilegt er að hver og einn taki að sér 5-6 fyrirtæki.
Tvenns konar áheit
Gefinn er kostur á tvenns konar áheitum. Annars vegar að heita ákveðinni krónutölu á hvern kílómetra sem syntur verður þann sólarhring sem sundið stendur yfir, eða leggja fram fasta upphæð.
Áheit hjá almenningi
Áheitum er safnað á sérstaka miða sem sundmenn fá afhenta áður en söfnun hefst. Athugið að ekki eru sömu miðar fyrir almenning og fyrirtæki. Þegar gengið er í götur er algengara að fólk leggi strax fram fasta upphæð. Kjósi fólk hins vegar að leggja fram ákveðna upphæð á hvern kílómetra þarf sundmaður að fara aftur að sundi loknu og innheimta áheitið.
Áheit hjá fyrirtækjum
Fyrirtæki þurfa að fá reikning fyrir þeim áheitum sem þau gefa. Söfnun hjá fyrirtækjum fer því þannig fram að fylltur er út miði fyrir umsaminni upphæð. Miðanum skilar sundmaðurinn til Óðins og síðan sér gjaldkeri félagsins um að senda út reikninga til að innheimta upphæðina. Þannig er það sundmaðurinn sem sér um að innheimta hjá almenningi en félagið sér um að innheimta hjá fyrirtækjum.
Sundið sjálft og skil á áheitum
Sundið stendur yfir frá kl. 15 á föstudegi til kl. 15 á laugardegi. Þjálfarar sjá um að skipta í hópa og munu sundmenn fá nákvæmar upplýsingar um hvenær þeir eiga að synda. Hver hópur þarf að mæta tvisvar/þrisvar og elstu sundmennirnir (Afrekshópur) sjá um nóttina. Synt er boðsund þar sem hver og einn syndir 25/50 metra í einu og skiptir þá við næsta. Markmiðið er að ná a.m.k. 100 km samtals. Þegar sundmenn mæta í fyrsta sinn til að synda skila þeir áheitum sínum, þ.e. peningum sem safnast hafa hjá almenningi og miðum fyrir fyrirtækin.
Frábær skemmtun
Sólarhringssundið er frábær skemmtun fyrir krakkana, eflir félagsandann og er kærkomin tilbreyting í sundstarfinu. Foreldrar skiptast síðan á um að sitja og telja ferðirnar þannig að þetta er eitthvað sem allir geta tekið þátt í. Hér er linkur á skjal þar sem foreldrar eru beðnir um að skrá sig á talningavakt.