Gullmót KR fór fram í Laugardalslauginni helgina, 14-16. febrúar.
Óðinn fór með stóran hóp sundkrakka á mótið, eða um 40 keppendur, á aldrinum 9-15 ára. Keppt var í fimm hlutum frá föstudegi fram á sunnudags eftirmiðdag.
Gist var í Laugarlækjarskóla og var mikið stuð á krökkunum. Þau stóðu sig svakalega vel á mótinu, en allir keppendur bættu tímana sína, sýndu seiglu og voru óhrædd við að prófa að synda nýjar keppnisgreinar.
Það er ekki síður mikill sigur, sérstaklega fyrir yngstu keppendurna okkar, að synda á svona stóru móti í 50m laug. Það er nefnilega töluverður munur á því að synda í 25m laug eins og við æfum í og svo 50m laug eins og mótið fór fram í.
Við áttum fimm þátttakendur í SuperChallenge en Ástrós Lea Þorvaldsdóttir, Alicja Julia Kempisty, Benedikt Már Þorvaldsson, Jón Ingi Einarsson og Magni Rafn Ragnarsson náðu inn í úrslitariðil í sínum aldursflokkum. Ástrós Lea gerði sér svo lítið fyrir og náði 3ja sæti í flokki 12 ára yngri á tímanum 36.80 sekúndur.
Glæsilegur árangur hjá öllu okkar fólki! Innilega til hamingju öll!
Áfram Óðinn!