Að þessu sinni fór mótið fram í Laugardalslauginni dagana 8. - 10. Apríl. Óðinn var með 12 keppendur skráða til keppni í 57 greinar.
Árangur á mótinu var viðunandi miðað við allt sem gengið hefur á utan laugar og eru þar helst veikindi sem hafa verið að stríða iðkendum Óðins (Covid og influenza). Í þeim 57 greinum sem iðkendur kepptu í þá voru 16 af þeim persónuleg met.
Mestu bætinguna í 50m lauginni átti Örn Kató Arnarson í 400m skriðsundi er hann bætti sinn tíma úr 5.38.36 í 4.45.76. Tvö Akureyrarmet voru sett á mótinu en það gerði í báðum tilfellum Sigurjóna Ragnheiðardóttir annarsvegar í 50m bringsundi er hún varð í 2. sæti, grátlega nálægt sigri, hinsvegar í 100m bringusundinu er hún varð í 3. sæti.
Ásamt Sigurjónu þá komust Kristinn Viðar Tómasson í úrslit í 100m og 200m baksundi og Örn Kató Arnarson í 200m baksundi. Kristinn varð í 6. sæti í báðum sínum greinum en Örn Kató varð í 4. sæti í sinni grein.
Eins og áður sagði þá er þetta viðunandi árangur hjá okkar keppendum en það er nú ávallt þannig að þjálfarar vilja fá meira. Framundan eru mismunandi verkefni hjá okkar sundfólki en þau sem eru 15 ára og eldri munu næst keppa á ÍRB móti um miðjan maí, svo lengi sem prófatíð truflar ekki þau áform og svo Sumarmót SSÍ þriðju helgina í júní. Þau sem eru 14 ára og yngri munu einnig hafa tækifæri til að keppa á ÍRB mótinu og svo Akranesleikunum í byrjun júní áður en AMÍ verður í enda júní.
Þjálfarar þakka kærlega fyrir samveruna á mótinu.