Pistill Sundsambandsins frá AMÍ 2015

ÍRB aldursflokkameistari félaga 2015

Sundfólk úr 18 liðum ásamt 2 gestum tók þátt í AMÍ sem haldið var á Akureyri frá fimmtudeginum 25.júní til 29.júní sl.  Mikið var um dýrðir og mjög margt efnilegt sundfólk sem tók þátt í mótinu.

AMÍ er margslungið mót og að þessu sinni var keppt í árgöngum í einstaklingskeppninni en í aldursflokkum í boðsundum.  Að auki var að venju stigakeppni félaga og í lokin eru útnefndir aldursflokkameistarar í þremur aldursflokkum auk þess sem efnilegasta sundfólkið 15 ára og yngra er útnefnt.

Þá var afhentur svokallaður Ólafsbikar sem er til minningar um Ólaf Þór Gunnlaugsson sundþjálfara og með fylgdi styrkur úr minningarsjóði Ólafs Þórs.

Sérstakar viðurkenningar
Á svona uppskeru og gleðihátíð eins og AMÍ er á hverju ári er vert að hafa í huga að sund er einhver hollasta og agaðasta íþrótt sem stunduð er á byggðu bóli.  Það kemur fram í mörgu, til dæmis er sundfólk upp til hópa agað og vel að sér um íþróttina sína.

Við áttum góða daga á Akureyri þessa fjóra daga.  Samstarfið við Sundfélagið Óðinn var einstaklega gott og þess vegna var formaður Óðins, Ómar Kristinsson, kallaður til og fékk afhentan örlítinn þakklætisvott frá SSÍ fyrir samstarfið í ár.

Þá var einnig tækifæri til að þakka einstaklingum fyrir og voru þær Karen Malmquist og Unnur Kristjánsdóttir sæmdar silfurmerki SSÍ fyrir óbilandi áhuga og skuldbindingu við sundíþróttina. Ólafur Baldursson var sæmdur gullmerki SSÍ fyrir mikið og gott framlag til sundhreyfingarinnar.

Ólafsbikar og Ólafssjóður
Ólafsbikarinn er farandbikar og veittur árlega fyrir besta afrek unnið á AMÍ í einni af eftirtöldum sundgreinum:

  1. 400m fjórsund
  2. 400m skriðsund
  3. 800m skriðsund
  4. 1500m skriðsund
  5. Taka skal tillit til aldurs

Bikarinn 2015 hlaut Stefanía Sigurþórsdóttir úr Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar fyrir 800 metra skriðsund 9:19,92, 627 FINAstig.  Það var Ingunn María, dóttir Óla Þórs, sem afhenti farandbikarinn og færði Stefaníu einnig bikar til eignar.

Minningarsjóður Ólafs Þórs Gunnlaugssonar veitir styrki við lok AMÍ ár hvert.  Sá sundmaður sem hlýtur Ólafsbikarinn fær styrk úr sjóðnum, en jafnframt skal veita amk einum fötluðum sundmanni styrk úr sjóðnum.

Styrkhafar 2015 eru þau Stefanía Sigurþórsdóttir Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar og Róbert Ísak Jónsson Sundfélagi Hafnarfjarðar

Aldursflokkaverðlaun einstaklinga
Í pilta og stúlkna flokkum skal veita keppendum sem ná bestum samanlögðum árangri í tveimur greinum:

Aldursflokkameistarar eru í piltaflokki, Ólafur Sigurðsson úr Sundfélagi Hafnarfjarðar fyrir 800 metra og 400 metra skriðsund sem færðu honum samtals 1229 stig. Í stúlknaflokki var það Eyrún Agla Friðriksdóttir Sundfélagi Hafnarfjarðar fyrir 800 metra og 1500 metra skriðsund sem færðu henni 1290 stig.

Í Drengja og Telpnaflokki eru teknar þrjár stigahæstu greinar einstaklinganna.

Í drengjaflokki náði Brynjólfur Óli Karlsson Breiðabliki 1587 stigum fyrir 200 metra baksund, 200 metra flugsund og 200 metra skriðsund.  Í telpnaflokki varð Stefanía Sigurþórsdóttir úr Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar hlutskörpust með 1798 stig fyrir 800 metra, 200 metra og 100 metra skriðsund.

Í Sveina og Meyja flokkum er miðað við samanlagðan árangur úr 200m fjórsundi, 400m skriðsundi og stigahæstu grein þar fyrir utan.

Aldursflokkameistari sveina er Andri Bergmann Isaksen Breiðabliki, en hann fékk 840 stig fyrir 200 metra fjórsund, 400 metra skriðsund og 200 metra skriðsund.  Meyjameistari er svo Þura Snorradóttir Sundfélaginu Óðni sem fékk 1240 stig fyrir fyrir 200 metra fjórsund, 400 metra skriðsund og 400 metra fjórsund.

Efnilegasta sundfólkið
Efnilegasti sundmaður og efnilegasta sundkona ársins, 15 ára og yngri, eru valin með tilliti til þriggja bestu/stigahæstu sunda einstaklingsins í 25 metra braut á árinu milli AMÍ
móta.

Efnilegasti sundmaður ársins er Brynjólfur Óli Karlsson Breiðabliki en hann fékk 573 stig fyrir 800 metra skriðsund í september 2014.

Efnilegasta sundkona ársins er Harpa Ingþórsdóttir Sundfélagi Hafnarfjarðar.  Hún synti 800 metra skriðsund í desember 2014 og fékk fyrir það 705 stig.

Til útskýringar má geta þess að stuðst er við stigatöflu alþjóðasundsambandsins FINA þegar fundið er út hverjir fá ofangreinda titla.

Aldursflokkameistari 2015
Aldursflokkameistari í stigakeppni félaga varð lið Íþróttabandalags Reykjanesbæjar en þau fengu samtals 1745 stig. Í öðru sæti varð lið Breiðabliks með 893 stig, en segja má að þetta AMÍ hafi verið þeirra skuldlaust, svo vel gekk þeim.  Í þriðja sæti varð Sundfélag Hafnarfjarðar með 877 stig.  Að öðru leyti varð röð félaga eftirfarandi:

4. sæti Sundfélagið Ægir með 772 stig

5. sæti Sundfélagið Óðinn með 626 stig

6. sæti Sundfélag Akraness með 352 stig

7. sæti Sunddeild KR með 225 stig

8. sæti Sunddeild Fjölnis með 189 stig

9. sæti Sunddeild Aftureldingar með 164 stig

10. sæti Sunddeild Ármanns með 148 stig

11. sæti Sunddeild Stjörnurnar með 52 stig

12. sæti ÍBV með 33 stig

13. sæti Rán með 32 stig

14. sæti Vestri með 10 stig

15.-16. sæti Sunddeild Hattar og UMFB með 1 stig

17.-18. sæti Sunddeild Sindra og Samherji án stiga

Þess má geta að fjöldi sundfólks úr hverju félagi var mjög mismunandi, tam var ÍRB með ríflega 60 sundmenn í sínu liði, Breiðablik, SH og Ægir með uþb 30 sundmenn, en önnur félög voru með færri sundmenn.

Að lokum
Að venju fór formaður SSÍ yfir tölfræði AMÍ.  Í máli hans kom fram að 129 sundmenn og 207 sundkonur, samtals 336 einstaklingar, hafi stungið sér 1756 sinnum í laugina, voru kölluð 1381 sinni til verðlauna og fengu afhentar 972 verðlaunapeninga.  Sundfólkið synti 2.195.000 metra þessa daga sem jafngildir því vegalengdinni milli Reykjavíkur og Akureyrar 5,7 sinnum. Sundfólkið gisti í Brekkuskóla og var þar einnig í fæði.  140 agúrkur, 400 kíló af öðru grænmeti og ávöxtum, 257 lítrar af mjólk og súrmjólk, 550 kíló af kjöti og fiski og 130 samlokubrauð ásamt áleggi fóru í að fæða sundfólkið.

Formaður SSÍ minnti einnig á að fjöldi fólks, flestir foreldrar sundfólksins, koma til starfa á móti eins og AMÍ og þakkaði þeim sérstaklega fyrir þeirra framlag.

Þeir Birgir Viktor Hannesson, Oddur Malmquist og Freysteinn Viðar Viðarsson stjórnuðu lokahófinu eftir AMÍ og fórst þeim það vel úr hendi.  Einar og Marína Ósk komu hópnum í mikið stuð og DJ Knutsen sá um að halda uppi dansfjörinu að formlegri dagskrá lokinni.