Ragnheiður Runólfsdóttir hefur verið ráðin yfirþjálfari hjá Sundfélaginu Óðni

Sundfélagið Óðinn hefur ráðið Ragnheiði Runólfsdóttur, eða Röggu eins og hún er oft kölluð, sem nýjan yfirþjálfara félagsins. Ragga býr yfir mikilli reynslu af þjálfun en hún hefur starfað við sundþjálfun frá árinu 1992 og lengst af sem yfirþjálfari.

Ragga er félaginu að góðu kunn þar sem hún sinnti þjálfun hjá Óðni á árunum 1996–1998 og svo aftur á árunum 2011–2019. Að undanförnu hefur hún starfað sem yfirþjálfari í Svíþjóð hjá Simklubben S02 í Gautaborg og hjá KBSS í Kungsbacka.

Við í Sundfélaginu Óðni bjóðum Röggu hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum til að vinna með henni að því að efla starfið enn frekar.