Hér kemur smá samantekt eftir ÍM25 um síðustu helgi. Óðinn átti 12 sundmenn á mótinu á aldrinum 12-17 ára. Heim komu fimm verðlaun, einn Íslandsmeistaratitill, átta Akureyrarmet, tvö aldursflokkamet og lágmark á Evrópumeistaramótið í 25 metra laug.
Bryndís Rún í stuði
Bryndís Rún Hansen var að öðrum ólöstuðum sundmaður mótsins. Hún vann gullverðlaun í 100 m flugsundi, silfur í 50 m flugsundi, silfur í 100 m fjórsundi og brons í 50 m baksundi. Í tveimur sundanna setti hún aldursflokkamet í stúlknaflokki, í 50 m baksundi og 100 m flugsundi. Í fyrri greininni tryggði hún sér einnig farseðilinn á Evrópumeistaramótið í 25 metra laug sem fram fer í Hollandi í lok mánaðarins. Jafnframt náði hún svokölluðu B-lágmarki fyrir mótið í 100 m flugsundi og 50 m skriðsundi og syndir því einnig í þeim greinum.
Úrslitasund í einstaklingsgreinum
Að komast í úrslit á Íslandsmeistaramóti þar sem 8 bestu synda er afrek út af fyrir sig. Tveir sundmenn Óðins syntu sig inn í úrslit í öllum greinum sínum á mótinu en auk Bryndísar var það Halldóra S. Halldórsdóttir sem synti 50 m skriðsund, 100 m skriðsund, 50 m flugsund og 100 m flugsund. Þær voru einnig, ásamt Hildi Þ. Ármannsdóttur og Júlíu Ýr Þorvaldsdóttur, í kvennasveit Óðins sem vann brons í 4x50 m fjórsundi. Hildur og Júlía Ýr voru einnig báðar að synda til úrslita í einstaklingsgreinum, Júlía Ýr í 50 og 100 m bringusundi og Hildur í 50 og 100 m baksundi. Oddur Viðar Malmquist synti til úrslita í 400 m fjórsundi og 200 m flugsundi, Freysteinn Viðar Viðarsson í 400 m skrisðundi, Karen Konráðsdóttir 200 m flugsundi og Nanna Björk Barkardóttir 200 m bringusundi en þess má geta að hún er aðeins 12 ára gömul.
Akureyrarmet
Átta Akureyrarmet féllu á mótinu, Byndís Rún setti sex þeirra og nanna Björk tvö. Báðar áttu þær reyndar öll metin fyrir. Bryndís bætti Akureyrarmet kvenna og stúlkna í 100 m skriðsundi (58:50), í 50 m baksundi (29:41) og 100 m flugsundi (1:0181). Nanna Björk bætti Akureyrarmet meyja í 200 m bringusundi (2:54,56) og 50 m flugsundi (32,40).