Sólarhringssund 16. október

Hvað er sólarhringssund?
Sólarhringssund er ein af fjáröflunum félagsins þar sem sundfólk í eldri hópum félagsins skiptist á um að synda boðsund í heilan sólarhring. Áður en að því kemur hafa krakkarnir safnað áheitum, bæði með því að ganga í hús og hjá fyrirtækjum. Allur ágóðinn rennur í ferðasjóð þeira sem taka þátt í að safna áheitum sem er breyting frá því áður. Upphæðin sem safnast mun því deilast á milli þeirra sem taka þátt í að ganga í hús og fyrirtæki.

Upphæð sem safnast skiptist jafnt niður á öll þau börn sem safna.
Nú í ár ákvað stjórn að breyta út frá vananum og mun ÖLL sú upphæð sem safnast skiptast jafnt á milli þeirra barna sem taka þátt í að safna áheitum með því að ganga í hús og fara í 3-4 fyrirtæki.  Undanfarin ár hefur safnast á bilinu 5-700 þús. Hvert barn gæti því mögulega fengið góða upphæð inn á fjáröflunarreikning sinn ef vel tekst til.

Hverjir synda?
Miðað er við að þátt taki Höfrungar, Krókódílar, Framtíðarhópur, Úrvalshópur, Afrekshópur og Hákarlar.

Undirbúningur
Dagana áður en sundið fer fram er safnað áheitum, sem er hin eiginlega fjáröflun. Annars vegar er safnað hjá fyrirtækjum, oftast með aðstoð foreldra. Hins vegar er gengið í hús hjá almenningi, oft tveir eða fleiri krakkar saman. Til að ekki fari fleiri en einn í sama fyrirtæki eða götu þarf að skipuleggja fyrirfram hver fer hvert. Hver sundmaður velur sér fyrirtæki og götur til að fara í og er það skráð niður. Hversu margar götur hver og einn tekur veltur auðvitað á stærð þeirra en æskilegt er að hver og einn taki að sér 3-4 fyrirtæki.

Úthlutun á götum og fyrirtækjum
Sundmenn geta valið sér götur og fyrirtæki  til að ganga í og safna áheitum og verður auglýst hvenær sú úthlutun fer fram. Þá munum við einnig kynna vel hvernig fjáröflunin fer fram. Við hvetjum foreldra til að koma með börnum sínum og kynna sér málið vel.

Áheit hjá almenningi
Áheitum er safnað á sérstaka miða sem sundmenn fá afhenta áður en söfnun hefst. Athugið að ekki eru sömu miðar fyrir almenning og fyrirtæki. Þegar gengið er í götur er æskilegt að fólk leggi strax fram fasta upphæð svo ekki þurfi að fara aftur að rukka.

Áheit hjá fyrirtækjum
Fyrirtæki þurfa að fá reikning fyrir þeim áheitum sem þau gefa. Söfnun hjá fyrirtækjum fer því þannig fram að fylltur er út miði fyrir umsaminni upphæð. Miðanum skilar sundmaðurinn til Óðins og síðan sér gjaldkeri félagsins um að senda út reikninga til að innheimta upphæðina. Þannig er það sundmaðurinn sem sér um að innheimta hjá almenningi en félagið sér um að innheimta hjá fyrirtækjum.

Sundið sjálft, skil á áheitum og vaktir
Sundið stendur yfir frá kl. 15 á föstudegi til kl. 15 á laugardegi í Akureyrarlaug. Þjálfarar sjá um að skipta í hópa og munu sundmenn fá nákvæmar upplýsingar um hvenær þeir eiga að synda hjá þjálfurum og einnig munu upplýsingar um það koma hér inn á vefinn.

Hver hópur þarf að mæta 2-3 þrisvar og elstu sundmennirnir (Afrekshópur) sjá um nóttina. Synt er boðsund þar sem hver og einn syndir 50 metra í einu og skiptir þá við næsta. Markmiðið er að ná a.m.k. 100 km samtals.

Þegar sundmenn mæta í fyrsta sinn til að synda skila þeir áheitum sínum, þ.e. peningum sem safnast hafa hjá almenningi og miðum fyrir fyrirtækin.

Foreldrar þurfa að skiptast á um að sitja og telja ferðirnar. Hver vakt er 1 klukkustund og upplagt að nota tímann á meðan barnið syndir. Blað til að skrá sig á vaktir mun liggja frammi í þjálfaraherberginu í Akureyrarlaug.

Gögn til útprentunar (PDF skjöl)

* Miðar fyrir söfnun hjá fyrirtækjum

* Miðar fyrir söfnun hjá einstaklingum

* Hópaskipting í sólarhringssundinu