Árangur móta
Helgina 24. – 26. janúar 2020 fór fram sundkeppni á Reykjavík International Games (RIG) í Laugardalslauginni í Reykjavík. Sundfélagið Óðinn sendi 18 keppendur á mótið og kepptu þeir í 90 greinum. Keppendur Óðins bættu árangur sinn í 47 greinum á þessu móti eða í 52% þeirra greina sem þeir kepptu í. Það verður að teljast mjög góður árangur keppenda sundfélagsins á móti á þessum árstíma. Keppendur Óðins komust í úrslit á mótinu í þremur greinum sem er flottur árangur en mótið í ár er sterkasta mótið frá upphafi sé horft til þátttöku erlendra keppenda og fjölda skráninga á mótið. Mjög margir sterkir sundmenn mættu til keppni og meðal þeirra verðlaunahafar á Ólympíuleikum sem og heimsmeistaramótum undanfarin ár.
Íslandsmeistaramótið í 50m lauginni framundan
Iðkendur Óðins hafa verið að æfa stíft frá því í lok ágúst 2019 og voru núna að stíla inn á árangur sem skilaði þeim inn heimild til að keppa á meðal þeirra bestu á Íslandsmeistaramótinu í sundi sem fram fer í byrjun apríl í 50m laug. Þegar þessi orð eru rituð þá eru 14 sundmenn komnir með tíma sem eru undir lágmörkum inn á Íslandsmeistaramótið. Til viðbótar eru sex sundmenn komnir með árangur sem er innan við 3% frá lágmörkunum.
Æfingaraðstaðan
Árangur sundmanna Sundfélagsins Óðins er góður sé horft til aldurs iðkenda félagsins og æfingaraðstöðu sem félaginu er boðið upp á. Undanfarið hefur Óðinn þurft að fella niður æfingar vegna veðurs þar sem ekki er hægt að bjóða afreksfólki að æfa í miklu frosti og vindi sem hefur geysað yfir landið síðan um miðjan desember. Sundfélagið hefur þurft að fella niður æfingar í11 daga frá miðjum desember 2019 fram til þessa dags. Einnig þurfti sundfélagið að aflýsa sundmóti í desember vegna frosthörku, sem er miður því fyrir marga iðkendur er þetta mót þeirra fyrsta sundmót og mikilvægt að geta gefið sundmönnum mótsreynslu í heimabyggð. Sé horft til félaga af sömu stærðargráðu í sambærilegu sveitarfélagi er þetta alls ekki samanburðarhæft. Það er með ólíkindum hvað sundkrakkarnir leggja á sig yfir vetrartímann á æfingum við öll veðurafbrigði til að ná þessum árangri. Sem dæmi má taka að iðkendur Óðins hafa ekki náð að æfa stungur ofan í sundlaugina síðan í byrjun nóvember 2019. Fyrir þá sem ekki þekkja til sundkeppni þá er stungan forsenda þess að komast af stað í öllum keppnum í íþróttinni.
Framtíðin
Um næstu helgi er Sundfélagið að senda ríflega 40 keppendur á Gullmót KR sem haldið er í Laugardalslauginni. Um er að ræða stærsta barna- og unglingamót ár hvert og því um að ræða afar sterkt og fjölmennt mót. Á þessu móti eru margir sundmenn að taka sín fyrstu skref í keppni í 50m laug og verður mjög gaman að fylgjast með árangri þeirra. Eldri sundmenn nota þetta mót til undirbúnings fyrir Íslandsmeistaramótið og sumir nota það til að freista þess að bæta við sig greinum til að keppa í þar. Síðasta mótið fyrir Íslandsmeistaramótið fer síðan fram í Hafnafirði um miðjan mars en á því móti er síðasta tækifæri sundmanna til að ná lágmörkum fyrir Íslandsmeistaramótið.
Sund sem keppnisíþrótt á Akureyri
Íþróttabærinn Akureyri þarf að huga að mörgu þegar kemur að uppbyggingu mannvirkja fyrir íþróttir. Sá sem þetta skrifar skilur vel að af mörgu þarf að huga þegar kemur að slíkri uppbyggingu. Það er mér bara afar hugleikið hvernig staðið er að sundíþróttinni hér á Akureyri. Uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu og fjöldatölur gesta hækka ár frá ári. Sundfélagið, ásamt skólaumhverfinu, á stóran þátt í þeirri fjölgun ásamt gestum sem sækja Akureyri heim. Æfinga og kennslu aðstaðan í þessu bæjarfélagi er snýr að sundi er til skammar. Það að ekki séu nema tvær litlar innikennslu sundlaugar sem hægt er að nota yfir vetrartímann í 19 þúsund manna bæjarfélagi er bara skammarlegt. Það þarf að hafa í huga að það er ekki einungis Sundfélagið sem notar mannvirkið til æfinga heldur ber öllum börnum á grunnskóla aldri að nota mannvirkið í sinni skólasundkennslu. Einnig má nefna að það æfa ekki bara íbúar Akureyrar sund hjá Óðni, það æfa líka iðkendur hjá félaginu úr nágrannasveitarfélögunum. Sundlaugin er því að þjóna mun fjölmennara samfélagi.
Gerum betur, gerum enn betur!
Áfram Óðinn
Ingi Þór Ágústsson
Yfirþjálfari sundfélagsins Óðins.