Sundsambandið færir bæjarfulltrúa Akureyrarbæjar stunguspaða!

Hörður Oddfríðarson frá SSÍ færir bæjarfulltrúanum Huldu Elmu Eysteinsdóttur vandaðan stunguspaða.
Hörður Oddfríðarson frá SSÍ færir bæjarfulltrúanum Huldu Elmu Eysteinsdóttur vandaðan stunguspaða.

Aðalfundur Óðins var haldin þann 8. apríl sl. í Teríu Íþróttahallarinnar.

Fundurinn var vel sóttur og mættu 40 manns. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir formaður lagði í kynningu sinni á skýrslu stjórnar mikla áherslu á að ný 50m yfirbyggð Sundlaug yrði byggð sem fyrst á Akureyri þar sem æfingaaðstaða félagsins sé afar bágborin. Fyrirspurn félagsins til Akureyrarbæjar í mars 2024 var svarað þannig að bærinn hefði engin áform um að byggja 50 m yfirbyggða laug á næstunni og því lítur út fyrir að iðkendur Óðins muni æfa áfram við frumstæðar aðstæður samanborið við iðkendur annarra sundfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Í október fóru af stað blaðskrif um aðstöðuleysi Sundfélagsins. Í kjölfarið komu skilaboð frá Akureyrarbæ þess efnis að nýlega væri búið að stilla upp framkvæmdaráætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2025-2028. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir fjármagni árið 2028 til að fara í formlega vinnu við að skoða möguleika og hugmyndir um 50 metra innisundlaug á Akureyri.

Sundsambandið (SSÍ) leggur áherslu á að sundíþróttamannvirki séu byggð með það markmið að styðja við sundkennslu, æfinga- og keppnisfólk. Í þeim tilgangi hefur SSÍ unnið að þarfagreiningu er varðar byggingu sundlaugamannvirkja hér á landi. Í nóvember kom út mannvirkjaskýrsla SSÍ. Jakob Jóhann Sveinson, margfaldur Ólympíufari og verkfræðingur, stýrði vinnunni ásamt fleirum.  Við útgáfu skýrslunnar tók SSÍ það sérstaklega fram að gríðarlega mikilvægt væri að byggja sem fyrst innisundlaugar á Akureyri og á Akranesi. Á Akureyri hafa sundæfingar ítrekað verið felld niður vegna veðurs auk þess sem skertar æfingar og aðstaða hafa ekki skilað sundfólkinu tilætluðum árangri.

 

SSÍ kom færandi hendi

Undir liðnum önnur mál tók til máls ritari SSÍ, Hörður Oddfríðarson ásamt fleirum. Hörður ræddi um aðstöðuleysið á Akureyri er kemur að æfingum og keppni sundfólks og getuleysi kjörinna fulltrúa til að standa við gefin loforð um byggingu sundlaugar. Að lokum færði hann bæjarfulltrúanum Huldu Elmu Eysteinsdóttur vandaðan stunguspaða með áletraðri kveðju frá SSÍ.  Stunguspaðinn er til að minna á að það er löngu tímabært að taka fyrstu skóflustunguna að nýrri 50 metra innilaug á Akureyri. Hulda Elma þakkaði fyrir rekuna og sagðist myndi vinna að málinu og að því að spaðinn myndi verða geymdur í ráðhúsinu þar sem hann minnti bæjarfulltrúa á að koma þyrfti spaðanum í notkun.

 

Breytingar á stjórn Óðins

Talsverðar breytingar urðu í stjórn Óðins. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir formaður gaf ekki kost á sér eftir 4 ár sem formaður félagsins. Kristjana Pálsdóttir Margrétardóttir var ein í framboði til formanns og var hún því sjálfkjörin. Einar Már Ríkarðsson og Halla Björk Garðarsdóttir gáfu kost á sér áfram en úr stjórn gengu Jón Valgeir Halldórsson, Jóhann Arnarson, Erna Jónsdóttir og Vala Frímannsdóttir. Nýir í stjórn voru kosnir Ásta Birgisdóttir, Breki Arnarson, Bryndís Vilhjálmsdóttir og Katrín Sif Antonsdóttir. Varamenn voru kosnir Karen Sif Stefánsdóttir og Erla Hrönn Unnsteinsdóttir.

 

Fundargerð aðalfundarins verður aðgengileg fljótlega á heimasíðu félagsins.

 

 Sundmenn Óðins létu sjá sig á aðalfundinum.

Fráfarandi formaður Guðrún Rósa (til vinstri) ásamt nýkjörnum formanni félagsins Kristjönu (til hægri)

Stunguspaðinn sem að SSÍ færir bæjarfulltrúa.