Sundþing 2011 tókst með miklum ágætum en því lauk í dag. Dagskárin í gær tók mið af því að um var að ræða 60 ára afmælisþing en að öðru leyti gengu þingstörf með hefðbundnum hætti. Karen Malmquist var kjörin í aðalstjórn SSÍ og þá hlotnuðust Óðinsfélögum einnig ýmsar viðurkenningar.
Fjórir frá Óðni fengu heiðursviðurkenningar
Alls voru 14 aðilar sæmdir gullmerki SSÍ og 28 aðilar silfurmerki. Þar á meðal voru okkar fulltrúar, Dýrleif Skjóldal og Gunnar Viðar Eiríksson, ásamt Siglfirðingnum Ólafi Baldurssyni, sem reynst hefur okkur Óðinsfólki haukur í horni í gegnum árin og dæmir fyrir félagið. Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ, sæmdi tvo einstaklinga gullmerki ÍSÍ og þar áttum við einnig fulltrúa, Benedikt Sigurðarson, fyrrum formann SSÍ. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands var gerður að heiðursfélaga SSÍ og jafnframt sæmdur gullmerki sambandsins.
Niðurstöður og samþykktir sundþings munu koma inn á vef SSÍ á næstu dögum en meðal samþykkta má nefna að sundþing verður héðan í frá haldið annað hvert ár, í stað árlega. Fulltrúar ÍBA á þinginu voru Halldór Arinbjarmnarson, Börkur Þór Ottósson, Karen Malmquist og Ólafur Baldursson.