Þrjú frá Óðni halda á alþjóðaleika Special Olympics

Tveir sundmenn frá Óðni er í hópi 36  keppenda sem valdir voru af Íþróttasambandi fatlaðra til þátttöku á Special Olympics leikunum sem hefjast í Aþenu næstkomandi föstudag. Þetta eru þau Elísabet Þöll Hrafnsdóttir og Jón Gunnar Halldórsson. Þá fer Dýrleif Skjóldal sundþjálfari einnig á leikana sem einn af fararstjórum íslenska hópsins. Hópurinn leggur af stað til Grikklands á morgun.

Leikarnir verða settir 25. júní og standa til 4. júlí en íslenski hópurinn fer utan á morgun og dvelur fyrstu dagana í vinabæ á svæðinu Halkidiki sem er skagi suðaustur af Hessaloniki. Vinabæjardagskrá er sett upp í þeim tilgangi að þátttakendur kynnist lífi heimafólks og myndi tengsl við íbúa.

Keppnisfyrirkomulag ólíkt öðrum íþróttamótum
Íþróttakeppni á alþjóðaleikum Special Olympics er ólík öðrum íþróttamótum. Umfang og glæsileiki líkist helst ólympíumótum en keppnisform er gjörólíkt. Engin lágmörk þarf á leikana en fyrstu dagana fer fram skipting í jafna getuflokka.  Þá hefst úrslitakeppni þar sem hámark 8 lið eða einstaklingar keppa sín á milli.   Gull, silfur og brons eru veitt fyrir fyrstu þrjú sætin og verðlaunaborðar fyrir fjórða til áttunda sæti. Þátttakendur á leikum Special Olympics eru einstaklingar með þroskahömlun en einnig er keppt í samsettum liðum fatlaðra og ófatlaðra.

Mikið umfang
Á leikunum í Aþenu verða 7000 keppendur frá 180 þjóðum, 3.500 starfsmenn íþróttagreina auk 25.000 sjálfboðaliða, aðstandenda, gesta, fjölmiðlafulltrúa og áhorfenda. Sem fyrr segir sendir Íþróttasamband fatlaðra 36 keppendur til Grikklands sem keppa í boccia, fimleikum, frjálsum íþróttum, golfi, keilu,  knattspyrnu, lyftingum og sundi.

Keppt á jafnræðisgrundvelli
Special Olympics samtökin gefa fólki með þroskahömlun tækifæri til að sýna hvað í þeim býr á jafnræðisgrundvelli.  Í  gegnum íþróttastarfið hafa þjóðir heims sameinast á glæsilegum leikum þar sem byggt er á samvinnu, samkennd, umburðarlyndi og virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins Þátttakan er aðalatriðið, allir keppa við sína jafningja og allir eiga sömu möguleika á verðlaunum. Hugmyndafræði Special Olympics byggir á gildi umburðarlyndis og jafnræðis. Lögð er megináhersla á þátttöku, ánægju, einstaklingsmiðaða færni og vináttu.

Heimasíður leikanna:

www.specialolympics.org

www.athens2011.org