Calella 2012 - Ferðasagan

Dagur 1.

Ferðalagið gekk vonum framar og þegar þetta er skrifað er klukkan 02:34 að staðartíma og allir komir í háttinn nema undirritaður. Við fengum að fresta morgunæfingunni um klukkutíma þar sem við vorum ekki komin hingað á hótelið fyrr en um miðnætti. Hótelið er fínt og á herbergjunum beið okkar matur og drykkur þannig að allir fóru saddir og sælir í rúmið. Hitin er að vísu 27 gráður þannig að lakið sem yfirbreiða verður örugglega ríflegt...

Dagur 2.

Allir vöknuðu hressir og kátir þó svefninn hafi verið í styttra lagi. Morgunæfing klukkan 10-12 og svo var farið á ströndina eftir hádegið. Hitinn var yfir 30 gráður og margir fengu góðan roða, en enginn bruni. Eftir seinnipartsæfingu og kvöldmat var rölt niður í bæ og búðir skoðaðar. Af þeim er meira en nóg og úrvalið eftir því. Nú eru allir komnir í ró og á morgun byrjar dagurinn með morgunmat klukkan 8 og svo æfing 9.

Dagur 3.

Dagurinn í dag hefur gengið vel. Æfing í morgun 9-11 og seinnipartsæfing 4-6. Milli æfinga var því tekið rólega þar sem krakkarnir okkar finna vel fyrir þessum æfingum og eins að á morgun er ferðinni heitið í rennibrautagarðinn http://www.waterworld.es//. Maturinn hér á hótelinu stendur klárlega undir væntingum og krakkarnir eru farnir að þekkja sig um hér í nágrenninu. Nokkrir fóru út í kvöld að kíkja í búðir ásamt Öldi,Bolla, Dillu og Röggu, en lagt er upp með að allir fari snemma í háttinn í kvöld þar sem 7 tímar í rennibrautagarði taka vel á. Engar óvæntar uppákomur hafa átt sér stað og allir eru hressir og kátir.

Dagur 4.

Í morgun mættu allir hressir og kátir í morgunmat klukkan 8, en lagt var af stað í rennibrautagarðinn Water world klukkan 9. Veðrið var eins og best verður á kosið, léttskýjað og smá vindur. Þessi garður var alveg frábær og allir skemmtu sér konunglega. Heim var svo haldið klukkan 16 og þó svo að flestir hafi verið ansi framlágir tóku sig þó nokkuð margir til og skelltu sér á ströndina svona rétt fyrir kvöldmatinn. Nokkri urðu vel rauðir eftir daginn, og er Bolli pabbi Bryndísar verðskuldaður sigurvegari. Nú er klukkan hálf tíu og flestir farnir í rúmið. Dagurinn á morgun verður þéttur hjá krökkunum, en byrjað verður á því að hlaupa klukkan 7 og svo sundæfing 9-11 og aftur 4-6. Allt gengur vel og allir ánægðir hér í þessu frábæra umhverfi.

Dagur 5.

Allir mættu ferskir á þrekæfingu klukkan 7 í morgun. Krakkarnir skelltu svo í sig morgunmat og síðan var sundæfing frá 9-11. Mikill hiti var í dag og flestir tóku því rólega fram að seinniparts æfingu. Þreyta er farin að segja til sín í hópnum, enda tekið vel á því á þessum æfingum og hvergi slakað á. Dagurinn á morgun verður eins og í dag þannig að krakkarnir fóru snemma í háttinn. Veðurspáin segir áframhaldandi blíða þannig að við höfum ekki yfir neinu að kvarta hér á Calella.

Dagur 6.

Sama sett af æfingum í dag og í gær, þrek 7-8 sund 9-11 og 4-6, að vísu gerði Ragga þá breytingu að seinni klukkutíminn á seinniparts æfingunni var tekinn í sjónum sem krökkunum líkaði vel. Milli æfinga í dag var slakað á, enda var hitinn nánast óbærilegur á þessum tíma. Hluti af hópnum notaði tímann milli æfinga  til að þvo þvotta, og koma myndir af þeim gjörningi á morgun. Eftir kvölmatinn fóru Alda, Dilla, Bolli og Börkur með góðan hóp af krökkum niður í bæ að kíkka í verslanir. Farið var með strætó á enda verslunargötunnar og síðan gengið til baka. Mikið að skoða og ótrúlega mikið af fólki á götunum. Skipurlagning Barcelonaferðar er í fullum gangi, en þangað er ferðinni heitið á miðvikudag. Á morgun verður engin þrekæfing fyrir sund, en annað óbreytt. Sem sagt allt í góðum gír og allir kátir og glaðir.

Dagur 7.

Í pisli gærdagsins fórst fyrir að geta þess að Ragga yfirþjálfari lendi  í smávægilegum hremmingum seint í gærkveldi. Þannig var að farastjóri hennar gamla félags ( ÍA ) sem er hér við æfingar líka bauð henni með í spa sem er í byggingunni við sundlaugina. Þær fóru frekar seint, en spaið lokar stundvíslega klukkan 22:00. Þegar þær vöknuðu upp við að ljósin voru slökkt stukku þær til en of seint. Allir voru farnir og allt lok og læs ! Ragga dó þó ekki ráðalaus heldur laumaði þeim í gegnum bílgeymslu í kjallaranum og út !  Þetta litla ævintýri hennar kenndi okkur að Spánverjar eru mínútumenn miklir. Dagurinn í dag hefur annars einkennst af æfingum, hvíld og matmálstímum. Hitinn hér fór yfir 40 gráður í dag og afríkuvindurinn svokallaði er mættur á svæðið með um 80%  loftraka sem gerir það að verkum að fötin gersamlega klístrast utan á okkur.Stóri skoðunardagurinn til Barcelona er á morgun og allt klárt fyrir þá ferð. Krakkarnir byrja daginn snemma, en sundæfing verður klukkan 06:00 og síðan verður lagt af stað eftir morgunmat stundvíslega klukkan 09:00. Fundur var haldin í kvöld þar sem farið var yfir dagskrá morgundagsins og brínt fyrir öllum að í Bacelona finnast meistara vasaþjófar.

Dagur 8.

Frábær dagur að kveldi kominn. Bacelona var tekin með stæl í dag. Við byrjuðum daginn á að skoða Olympíuleikvanginn þar sem Ragga keppti árið 1992. Þaðan var haldið niður í miðbæ og Ramblan tekin með stæl. Við skiptum okkur í 4 hópa og síðan voru verslanirnar þræddar hver af annari. Hóparnir hittust síðan á ákveðnum stað og þaðan var haldið að Casa Batlló og Casa Milá, en það eru meistaraverk Gaudi. Krakkarnir versluðu töluvert þannig að þau voru orðin frekar framlág þegar við settumst upp í rútuna áleiðis til Sagrada Familía kirkjunnar sem er meistaraverk Antoni Gaudi. Við fórum inn og skoðuðum þetta mikla mannvirki og það má með sanni segja að allir hafi verið heillaðir af þessu. Rútan kom svo stundvíslega klukkan 18:00 og sótti okkur. Þegar við komum á hótelið um 19:00 voru flestir búnir að fá nóg og eftir kvöldmat var því tekið rólega. Í fyrramálið verður dagurinn tekinn snemma, en krakkarnir byrja á þrekæfingu klukkan 07:00. Allir sáttir og glaðir eftir daginn og allt gekk eins og best verður á kosið. Myndir úr ferðinni verða settar inn á facebook síðu félagsins.

Dagur 9.

Dagurinn í dag hefur verið hefðbundinn hjá hópnum, þrek klukkan 7-8, sund 9-11 og svo aftur sund 4-6. Flestir slökuðu á í pásunni milli sundæfinga. Dregið hefur aðeins úr hitanum hér, en sólin stingur samt sem áður yfir miðjan daginn. Margir ætla að fara í bæinn í kvöld til að kaupa síðustu hlutina fyrir heimferð, en nú eru krakkarnir búnir að finna út hvar hagstæðast er að versla hér í kring. Myndir frá deginum í dag eru komnar inn á facebook síðu félagsins.

Dagur 10.

Þá er næst síðasti dagurinn senn á enda. Frjálst var að fara í þrek í morgun, en nokkrir tóku sprettinn á ströndinni fyrir morgunmat. Krakkarnir fóru svo á morgunæfingu, en eftir hádegi fengu þau frí og flestir notuðu tækifærið og fóru á ströndina. Síðustu hlutirnir voru svo keyptir seinnipartinn og í kvöld. Alda fararstjóri átti afmæli í dag, og af því tilefni fengum við flotta köku eftir kvöldmatinn. Nú eru allir í óðaönn að pakka niður þar sem við verðum að vera búin að tæma herberginn fyrir 9 í fyrramálið. Morgunæfing verður á sínum stað, en eftir hana er formlegum æfingum lokið. Við ætlum svo út að borða um 18:00 á morgun, en rútan sækir okkur 20:15 og keyrir okkur á flugvöllinn. Við eigum svo flug um miðnætti og áætluð lending er um 02:00 aðfaranótt sunnudags. Nánari upplýsingar um heimferðina verða uppfærðar jafn óðum. Myndir frá deginum í dag er hægt að sjá á facebook síðu félagsins.

Dagur 11. Dagurinn hófst á morgunmat klukkan 8, en strax eftir morgunmat þurftu allir að tæma herbergin áður en farið var á morgunæfingu klukkan 9. Við fengum að geyma dótið okkar í stóru fundarherbergi á hótelinu. Eftir æfingu og fram eftir degi var frjáls tími, en um 6 leitið fórum við öll saman út að borða. Rútan kom og sótti okkur 20:15 og keyrði okkur á flugvöllinn. Við stigum svo um borð í flug FI 597 til Keflavíkur. Við lentum í Keflavík 02:30 og þar beið okkar rúta frá Hópferðabílum sem keyrði okkar til Akureyrar. Ragga yfirþjálfari varð eftir í Keflavík þar sem stelpurnar hennar voru í pössun í Vestmanneyjum. Það voru þreyttir, en sælir ferðalangar sem stigu út úr rútunni við íþróttahöllina um 8:40 í morgun. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim Röggu,Dillu,Öldu og Bolla fyrir samferðina, og krakkar þið eruð frábær öll sem eitt. Takk takk for turen. Börkur Þór Ottósson