Lanzarote - upplýsingar

Við dveljum á Club La Santa, þekktum sportklúbbi með aðstöðu í heimsklassa. Þarna koma m.a. mörg landslið til æfinga í sundlauginni, sem er hæf til keppni á Ólympíuleikum. Á svæðinu eru líka óteljandi möguleikar til afþreyingar. Á myndinni sér yfir svæðið en hótelið stendur við lón skammt frá ströndinni og á lóninu er hægt að fara á kajak, seglbretti o.fl. Laugin sem við æfum í er neðarlega fyrir miðri mynd. Þess má geta að ÍRB dvaldi þarna á sama tíma og við fyrir ári síðan og líkaði vel. Skoða myndir hjá ÍRB
Æfingar fyrir ferð

Tvær æfingar verða fyrir brottför þ.e. föstudaginn 10. ágúst kl.17:00 og laugardaginn 11. kl.10:00. Nauðsýnlegt er að sundmennirnir komist í gang (sundlega) áður en lagt verður í hann.
Ferðatilhögun

Lagt verður af stað með rútu frá Akureyrarsundlaug kl.06 að morgni sunnudagsins 12. Brottför frá Keflavík til Lanzarote kl.14:55 (flugnr. AEU813).
Flugið tekur rúma 5 tíma og lent kl.21:15 að staðartíma en klukkan á Kanaríeyjum er 1 klukkustund á undan Íslandi á sumrin. Farið með rútu (20 – 30 mín.) til Club La Santa sem er staðsett á norðanverðri eyjunni. Heimferð er sunnudaginn 26. ágúst kl.22:15 (flugnr. AEU814), lent kl.02:35 að staðartíma á Íslandi. Áætluð heimkoma til Akureyrar kl.10:00 að morgni mánudagsins 27. ágúst.
Klæðnaður í ferð út og heim

Óðinsgalli/peysa (nýi), Óðinsbolur langerma hvítur.
Gisting og fæði

Gist verður í 3-4 manna íbúðum (1 herbergi, eldhús, stofa og baðherbergi). Fullt fæði ýmist hlaðborð eða þjónað til borðs. Fararstjórar og þjálfarar sjá um mat á milli mála (innifalið í heildarverði).
Æfingar og afþreying

Flesta daga verða 2 æfingar á dag sú fyrri frá kl.9 – 11 og sú seinni frá 17-19 auk þrekæfinga. Alls kyns afþreying er í boði enda staðurinn talinn vera einn allra besti æfingastaður sem völ er á. Að öllum líkindum verður farið í tvær skemmtiferðir annars vegar í vatnsleikjagarð og hins vegar í skemmtigarð með ýmsum leiktækjum.
Fatnaður/búnaður

Óðinsgalli, hettupeysa, Óðins stuttbuxur, Óðins bolir stutterma og langerma. AMÍ bolinn nýja. Léttur fatnaður, stuttbuxur, hlýrabolir, derhúfur, sandalar (opnir skór), sólaráburður (mikil vörn/vatnsvörn PRODERM FROÐA MJÖG GÓÐ),
æfingaföt, æfingabúnaður, hlaupaskór, handklæði og þ.h.
Vegabréf, tryggingar og lyf

Ljósriti af vegabréfi ber að skila til fararstjóra ekki seinna en 07. ágúst.
Ganga þarf úr skugga um að börnin séu tryggð í ferðinni. SOS kort frá Tryggingafélagi og E111 kort frá Tryggingarstofnun (er á ábyrgð foreldra). Koma þarf þeim upplýsingum til fararstjóra einnig. Þurfi sundmaður einhverra hluta vegna að taka inn lyf í ferðinni ber að tilkynna það skriflega fyrir brottför til fararstjóra.
Farsímar

Farasímar verða leyfðir í ferðinni enda eru þeir öryggistæki ef rétt er með þá farið. Verið ekki að hringja í hvert annað að óþörfu, því símtöl erlendis eru dýr. Ef þið ætlið að hringja í íslenskt númer þurfið þið að slá inn +354 og svo númerið.
Merkingar

Munið að merkja allar ykkar eigur vel svo ekki komi til ruglings þegar fatnaðurinn er þveginn en fararstjórar munu sjá um þvotta. Ekki er ástæða til þess að hafa með sér nein ósköp af fatnaði
Þjálfarar og fararstjórar

Með í för verða 2 þjálfarar og 3 fararstjórar
Vlad og Svetlana,
Ásta sími 864-6403, Ólína sími 862-7749 og Halldór sími 861-4331. Þeir sem eru með GSM-síma setji endilega númer fararstjóranna inn í símaskrána áður en ferð hefst.
Vasapeningur

Sundmennirnir mega hafa 300 Evrur (ca. 25.000 kr.) með sem vasapening. Þessir peningar verða í vörslu fararstjóra sem úthluta peningum einu sinni á dag
Verð

Heildarkostnaður á mann er um 155.000.- í því er flug, gisting, fullt fæði, æfingaaðstaða, rúta Ak., Kef. Ak.,  kostnaður v.þjálfara og fararstjóra, ávaxta, vatns og skemmtigarða. Kostnaður per. sundmann er á bilinu 25.000 - 45.000.- Greiðist sú upphæð fyrir brottför inn á reikning 1145-05-442968, kt. 580180-0519, sem er Ferðabókin okkar í Sparisjóðnum.
Um Lanzarote:

Lanzarote er sannkölluð paradísareyja, um 100 km undan ströndum Afríku. Hún tilheyrir Kanaríeyjaklasanum en nýtur afgerandi sérstöðu fyrir einstakt náttúrufar og veðursæld, hreinleika og frábæran aðbúnað. Möguleikar til leikja og skemmtunar eru líka hreint óteljandi.

60% alls lands á Lanzarote er á heimsminjaskrá UNESCO fyrir sérstæða náttúrufergurð, en vinsældir eyjarinnar byggja ekki síst á einstöku samspili óspilltrar náttúru og hrífandi byggingarstíls. Íbúar Lanzarote framkvæma í sátt við umhverfið og gesturinn gengur inn í nýjan menningarheim sem á engan sinn líka. Kannski ekki tilviljun að Lanzarote er hluti eyjaklasans sem sagður er leifar hins forna Atlantis. Lágreist hús, hvítar strendur, einstök menning í mat og drykk og frábær hótel gera heimsókn til Lanzarote að ógleymanlegu ævintýri fyrir ferðalanga á öllum aldri.

Veðurfar á Lanzarote yfir sumarmánuðina er þurrt og sólríkt, en þar verður nánast aldrei yfirþyrmandi heitt eins og vill gerast á meginlandi Evrópu og Afríku yfir heitustu sumarmánuðina. Staðvindar og hafstraumar halda veðrinu á Lanzarote þurru og mildu allan ársins hring. Eyjan er afar sólrík, meðalhiti í ágúst er um 27 gráður og sólarstundir 10. Tekið af sumarferdir.is