Lanzarote 2007 - ferðasaga

Nýjustu fréttir frá Lanzarote:

Sunnudagur 26. ágúst:
Þegar þetta er skrifað um kl. 5 að íslenskum tíma erum við á leiðinni að borða saman á pizzastað og síðan verður lagt í hann á flugvöllinn. Við eigum að lenda í Keflavík kl. 2:35 í nótt og áætlum að vera komin að Sundlaug Akureyrar á milli kl. 9 og 10 í fyrramálið. Lanzarote kveður okkur með sól og blíðu.

Föstudagur 24. ágúst:
Loksins. Loksins er nettengingin hér á hótelinu orðin virk aftur. Margt hefur á daga okkar drifið síðan siðast. Eins og fram kom þá var stefnan sett á vatnsleikjagarð á miðvikudaginn eftir landæfingu. Því miður reyndust hvorki garðurinn né veðrið fyllilega standa undir væntingum okkar. Rennibrautirnar voru rétt í meðallagi, samt alveg þokkalegar, en verra var að við höfðum enga sól og þeir sem hafa komið í vatnsleikagarð þar sem allt vatn er óupphitað vita að það er eiginlega nauðsynlegt að hafa sól. Við ákváðum því að fara fyrr heim en til stóð í upphafi og eyddum seinniparti dagsins i góðu yfirlæti hér á Club La Santa, þar sem sólin var farin að skína þegar við komum til baka. Reyndar hefur sólin skinuð frá morgni til kvölds síðustu tvo daga og allir að verða flott brúnir, eða “tannaðir” eins og það heitir víst. Þrátt fyrir óteljandi varnaðarorð og  fyrirbyggjandi aðgerðir af hálfu fararstjóranna sést samt eitthvað af rauðleitum öxlum, bringum og leggjum. Ekkert er  það samt til að hafa áhyggjur af, bara svona hefðbundin sólarlandaroði. Reyndar höfum við verið svo heppinn að sleppa alveg við alvarleg veikindi og óhöpp. Þó varð smá slys í sundlauginni á miðvikudagsmorguninn þegar strákarnir sáust ekki alveg fyrir í leikaraskapnum sem endaði með því að Freysteinn fékk vænan skurð í hársvörðinn. Væntanlega mun sárið þó gróa áður en hann giftir sig, þótt reyndar hafi verið gantast með að í það gæti farið að styttast, miðað við hvað stelpurnar eltast við hann :).

Dagarnir líða annars ljúft áfram með  æfingum, sól og leikjum. Tennisinn er vinsæll þessa dagana og ýmsar keppnir verið haldnar á þeim vettvani. Á kvöldin er yfirleitt skemmtun hér á hótelinu og á miðvikudagskvöldið tróð hópur af stelpum frá Óðni up og sýndi street-dance við góðar undirtektir. Á morgun laugardag er síðasti æfingadagur og síðan þurfum við að fara að huga að heimferð, en brottför héðan er á sunnudagskvöld. Nýjar myndir eru nú komnar inn á myndasíðuna. Þær eru m.a. af ferð í vatnsleikagarðinn og úr sundlaugargarðinum hér á Club La Santa.

Föstudagur 24. ágúst:
Nettengingin er í ólagi hjá Lanzaroteförum og þess vegna koma ekki inn nýjar fréttir eða myndir.
Annars er samkvæmt Halldóri „geggjuð sól og svaka stuð“.

Þriðjudagur 21. ágúst:
Í gær vorum við að kvarta undan því að sólin væri of feimin við að láta sjá sig og það var eins og við manninn mælt, í dag brast á með sólskini. Af því tilefni voru margir sem notuðu tíman yfir miðjan daginn til að baka sig aðeins í sundlaugargarðinum. Hins vegar eru Óðinskrakkarnir ekki mikið fyrir að sitja auðum höndum og heimsóttu því margir strandblaksvöllinn eða nýttu sér aðra þá afþreyingu sem hér er í boði. Þá dreif hópur sig í kennslu í street-dance og sýndi frábæra takta. Á morgun verður rútínan aðeins brotin upp og að loknum morgunmat verður stefnan tekin á vatnsleikjagarð hér hinu megin á eyjunni. Þar verður deginum eytt í rennibrautum og öðrum þeim græjum sem boðið er uppá á slíkum stöðum. Er ekki laust við að nokkur spenningur sé í hópnum af þessu tilefni.

Nýjar myndir eru nú komnar inn á myndasíðuna. Þær eru m.a. af landæfingu í gærmorgun, street-dance í dag og fleiru því sem á daga okkar hefur drifið hér á Lanzarote.

Mánudagur 20. ágúst:
Lífið gekk sinn vanagang hér á Lanzarote í dag og án allra stórviðburða. Allir eru í fínu formi, glaðir og kátir. Eins og gengur er að ýmsu að hyggja í stórum hópi og þorskandi fyrir alla að öðlast þá lífsreynslu að deila kjörum með félögum sínum í nánu sambýli í hálfan mánuð. Í því felst einnig lærdómur sem kemur til með að gagnast fólki áfram, ekki síður en sundæfingarnar. Sólin hefur ekki verið að hrella okkur um of síðustu daga, eða þannig. Með öðrum orðum vildum við gjarnan sjá aðeins meira af henni. Hitastigið og loftslagið er samt afskaplega þægilegt, ekki þrúgandi heitt en notalegt að spóka sig léttklæddur frá morgni til kvölds. Það koma ekki nýjar myndir inn í dag en vætanlega á morgun.

Sunnudagur 19. ágúst:
Þá er fyrri vikan búin og meira hvað tíminn getur verið fljótur að líða. Í dag var frí frá æfingum en það merkir ekki að einhver allsherjar slökun sé í gangi. Þvert á móti þá var dagurinn tekinn snemma, vaknað kl. 8 í morgunmat og upp úr kl. 9 var lagt af stað áleiðis á útimarkað í borginni Teguise. Hann er haldinn á hverjum sunnudegi og dregur að sér tugþúsundir fólks. Teguise var á öldum áður höfuðstaður Lanzarote og var valinn staður á eyjunni miðri til að vera sem fjærst sjóræingjum sem stöðugt herjuðu á ströndina. Þar af leiðandi stendur borgin í nokkurri hæð upp í fjöllunum og þegar við komum þangað var veðrið ekki upp á það besta. Lítið um sól og ekki mjög hlýtt. Jæja-við skulum bara orða hlutina eins og þeir raunverulega voru. Það var einfaldlega íslensk suddarigning, rok og ekki mjög spennandi að hefja göngu um götur Teguise. En hópurinn lét það ekki á sig fá og arkaði um sölubásana, sem munu vera um 500 talsins, fram til kl 1 þegar rennt var til baka á hótelið. Þá var líka komin sól og sæla og drifu flestir sig í sólbað fram eftir degi. Einnig var farið í tennis, golf, strandablak o.fl. skemmtilegt sem hér er hægt að stunda. Þá bar það til tíðinda í kvöld að fjölgaði í liðinu þegar Karen Konn bættist við. Er þá hópurinn fullskipaður. Á morgun verða æfingar með hefðbundnu sniði, landæfing og tvær sundæfingar. Vonum við þá að sólin láti meira sjá sig en undanfarna tvo daga, þótt seinniparturinn í dag hafi reyndar verið fínn. Einnig kom sér vel að fá smá pásu frá sólinni þannig að rauðir líkamspartar náðu að jafna sig. Nýjar myndir eru komnar inn á myndasíðu.


Laugardagur, 18. ágúst:
lanzarote_213Í dag var vaknað heldur seinna en vanalega þar sem landæfing  var felld niður en það mættu allir ferskir í morgunmat kl. 9. Síðan kom hefðbundin morgunæfing og að sjálfsögðu var hvergi slakað á. Í dag var að mestu skýjað þannig að minna var um sólböð en tíminn þess í stað nýttur til annarra gagnlegra hluta. Hér á Club la Santa eru skipulagðar íþróttakeppnir á hverjum degi og í dag var komið að 10 km hlaupi. Þar skráðu sig tveir til leiks úr Óðni, Halldór fararstjóri og Magnús Arturo. Keppnin fór fram síðdegis og var ekki laust við að nokkur spenningur væri ríkjandi. Kapparnir undirbjuggu sig af kostgæfni, Magnús fékk frí á seinnipartsæfingu og Ásta og Ólína slepptu Halldóri við öll skyldustörf eftir hádegi. Þátttakendur í hlaupinu voru um 60 talsins og fór ekki á milli  mála hverjir voru með öflugasta stuðningsmannaliðið. Af hlaupinu er það að segja að Magnús tók strax forystu á Halldór, sem þó reyndi að hanga í unglingnum og komst síðan fram úr honum um tíma um mitt hlaup. Endaspretturinn var hins vegar Magnúsar.  Báðir kláruðu hlaupið á tíma undir 42 mínútum og hefur varla öðrum hlaupurum verið fagnað annað eins og þegar þeir félagar komu í mark og hlupu lokahring á íþróttavellinum. Myndir frá deginum eru komnar inn á myndasíðu.

Laugardagur, 18. ágúst:
Nú er fyrsti skammtur af myndum kominn inn á myndasíðuna. Það voru Ásta og Ólína sem tóku myndirnar. Skoða myndir frá Lanzarote.

Föstudagur, 17. ágúst:
Verslunargatan Avenida de las Playas í sólstrandarbænum Puerto del Carmen mun vart bera sitt barr eftir atburði dagsins í dag. Upp úr hádegi var gerð þar innrás 30 íslenskra víkinga úr sundfélaginu Óðni sem skönnuðu hverja verslunna af annarri á ógnarhraða. Margar evrur lágu í valnum eftir daginn, nokkuð mismargar þó eftir einstaklingum. Metið átti Halldór fararstjóri sem eyddi 1 evru en hvar efri mörkin liggja skal ósagt látið. Farið var með rútu frá Club la Santa en bærinn Puerto del Carmen er stærsti sólarstaðurinn og aðal verslunarstaður Lanzarote. Fundinn var bækistöð miðsvæðis á ströndinni þar sem ákveðið var að einn fararstjóri myndi alltaf verða tiltækur. Verður þó að segjast að Halldór átti þar frekar næðissaman og einmannalegan dag þar sem verslanirnar virtust heilla meira en ströndin að þessu sinni. Nokkrir drifu sig þó aðeins í sjóinn til að kæla sig niður. Áður en farið var til baka í kvöld borðaði hópurinn saman á pizzastað og síðan var tími fyrir einn stuttan hring til viðbótar í “mollinu”. Það voru því margir þreyttir og aumir fætur sem stigu út úr rútunni við Club la Santa í kvöld, enda ákvað Vlad að best væri að sleppa landæfingu í fyrramálið til að fólk gæti safnað kröftum og sofið aðeins lengur frameftir.

Í gær var líka annasamur dagur samkvæmt venju. Tíminn yfir miðjan daginn á milli sundæfinga var vel nýttur. Hluti hópsins hélt í hjólaferð um nærliggjandi sveitir og þorp á meðan aðrir heimsóttu siglingamiðstöðina hér á Club la Santa. Flestir fóru á kæjak en Vlad reyndi fyrir sér á seglbretti. Þrátt fyrir takmarkaða reynslu á þessu sviði afþakkaði hann alla leiðsögn, enda gæti varla verið svo flókið að sigla á seglbetti. “Bara standa, snúa hægri-vinstri. Ekkert mál,” svo  notuð sé hans eigin orð. Nokkuð stífur vindur var í gær og hvarf Vald fljótlega sjónum manna. Eitthvað varð leiðin til baka hins vegar tafsamari en ráð var fyrir gert. Var síðast brugðið á það ráð, þegar liðið var nokkuð á aðra klukkustund, að Freysteinn og fleiri fóru á kæjak og drógu kappann aftur til baka. “Ég koma aftur á morgun og æfa meira,” sagði Vald og lét sér hvergi bregða. Hjólaliðið skilaði sér allt til baka og hafði þá lagt 23 km að velli.

Þá er það einnig að frétta af verslunarferðinni í dag að fjárfest var í kortalesara fyrir myndavélar og er því von á myndum inn á síðuna innan tíðar.

Miðvikudagur, 15. ágúst:
Diskóið í gærkvöld varð sögulegra en til stóð. Það var fyrir aldurshópinn 13-18 ára og ákváðu fararstjórar og þjálfarar Óðins að líta inn til að tékka á liðinu. Þar sem þeim fanst stuðið ekki alveg nógu mikið drifu þau sig út á dansgólfið og sýndu mikla takta, að eigin mati. Skipti þá engum togum að inn stormaði öryggisvörður með alvæpni og bað þau vinsamlegast að yfirgefa húsið þar sem þau væru OF GÖMUL. Mótbárur okkar fólks gerðu bara illt verra og má því segja að fullorðna fólkið hafi verið unglingunum takmörkuð fyrirmynd að láta henda sér út af diskóteki. Máttu þau sitja undir allskonar háðsglósum það sem eftir lifði kvölds.

En að öllu gamni slepptu þá var dagurinn í dag jafn frábær og hinir. Á milli æfinga notaði fólk aðstöðu staðarins til hins ítrasta, fór m.a. í tennis, á kæjak, í mínigolf, strandblak og reiðhjól, auk þess að sleikja sólina. Já, hér er sko margt við að vera. Bless í bili.

Þriðjudagur, 14. ágúst:
Í dag er annar heili dagurinn hér á Lanzarote en við komum á Club la Santa seint á sunnudagskvöld. Ferðalagið frá Íslandi gekk vel en þetta var langur dagur og allir orðnir ansi þreyttir. Það tók líka sinn tíma að koma öllum fyrir í réttum herbergjum því Club la Santa er meira í ætt við lítið þorp en eiginlegt hótel.

Gærdagurinn hófst með morgunmat kl. 9 en síðan var morgunæfing og hádegismatur. Að honum loknum stormaði fólk í sundlaugargarðinn, enda allir orðnir þyrstir eftir að komast í alvöru sólbað. Einnig var kíkt í strandblak o.fl. Eftir kvöldmat var svo heljar skemmtun eða sýning sem starfsfólkið á hótelinu sá um. Við erum nú að verða heimavön hér á svæðinu og í dag eftir hádegismat löbbuðum við í næsta þorp og fengum okkur ís.

Þegar þetta er skrifað um kl. 18 er seinnipartsæfing í fullum gangi og eftir kvöldmat er diskótek á dagskránni. Það eru allir í fínu standi og eldhressir. Einstaka rauðar axlir sjást eftir sólbað gærdagsins en ekkert til að hafa áhyggjur af. Fyrir okkur fararstjórana er heiður að fá að fylgja krökkunum ykkar í þessa ferð. Eins og allsstaðar sem við komum fer fólk strax að tala um hvað þetta eru flottir krakkar, fjörug en kurteis. Við biðjum svo að heilsa í bili og reynum að koma fleiri fréttum og helst myndum inn við tækifæri. Þegar hafa mörg ógleymanleg andartök verið fest á filmu (eða minnskort öllu heldur)

Kveðja,
Ásta, Halldór og Ólína.

----------------------------

Dagana 12.-27. ágúst fer Óðinn í æfingaferð til Lanzarote, sem er ein af Kanaríeyjunum. Í þessa ferð fara afrekshópur og krakkar úr úrvalshópi, fædd 1994 og fyrr. Nánari upplýsingar um ferð

Símanúmer fararstjóra ef frekari upplýsingar vantar:
Ásta sími 864-6403, Ólína sími 862-7749 og Halldór sími 861-4331.